Sarpur | júní, 2013

Allt partíið í gær

30 Jún

Fyrsta All Tomorrows Parties er þá yfirstaðin og var í flesta staði alveg stórfengleg. Nick Cave & The Bad Seeds voru alveg frábærir (nema í Jesú-píanó lögunum, en þá fór maður bara út), sándið yfirþyrmandi æðislegt og allir í miklu stuði. Langbesta band hátíðarinnar, það var eins og ýtt væri á einhvern dempara-takka þegar öll hin böndin spiluðu (nema Fall, það var hávaði í þeim).

Í öðru laginu, Jubilee Street af nýju plötunni, datt Nick Cave aftur fyrir sig á rampi ofan í áhorfendasvæðið sem hann hafði látið smíða fyrir sig. Salurinn hélt að hann hefði hálsbrotnað. Sérstaklega þar sem rótari, sem var í algjöru uppnámi, kom hlaupandi yfir sviðið og stökk ofan í vettvang hálsbrotsins. Á meðan á þessu stóð sturlaðist bandið í einu af meistaralegu frík/noise-átum kvöldsins.  Jæja, það verða þá bara tvö lög í kvöld því Ísland drap Nick Cave, hugsaði maður, en svo kom gamli maðurinn (55 ára) röltandi frá hliðarvæng (hvernig komst þann þangað?, hugsaði maður) og fór að glamra á píanóið með bandinu, sem var enn að sturlast uppi á sviði. Nick djókaði svo með það að hann hefði átt að biðja um handrið á rampinn og að honum væri illt í rassinum. MOGGINN ER MEÐ MYNDBROT AF FALLI NICKS.

Niðurstaða kvöldsins var að Nick Cave er mest kúl maður í heiminum og hann fór á kostum í framlínu geysiþétts bands, en meðlimirnir hafa verið lengi með. Athygli vakti geithafurinn með fiðluna, Warren Ellis. Hann tók Paganini á þetta. Hann hefur spilað með Nick í Grinderman og er með bandið Dirty Three. Á hljómborð og trommur var Barry Adamson, gamall bassisti úr Bad Seeds og meðlimur Magazine. Hinn rosa stóri trommari Jim Sclavunos var rosalegur. Hann er Kani og gamall í hettunni, spilaði með The Cramps, Lydiu Lunch, Sonic Youth o.s.frv. Bassistinn Martyn P. Casey var í The Triffids. Enn einn Ástrali, Conway Savage, var á hljómborð. Ég veit ekki alveg hver var á gítar í þetta skiptið. Ed Kuepper úr The Saints/Laughing Clowns hefur verið að spila með Cave, en þetta var yngri maður í gær – líklega einhver sessjónkall.

En allavega, vá, hvílíkt gallerí snillinga og djöfulli magnað allt saman.

Í gær sá ég líka Hjaltalín sem eru skemmtileg og góð, Deerhoof, sem mér finnst aldrei neitt spes, Squrl bandið hans Jim Jarmusch – hann á að halda sig við kvikmyndagerð – á meðan Monotown spilaði (íslenskt band sem menn tala um í mikilli hrifningu þessa dagana) var ég með vel heppnaðan Popppunkt í Offisera-klúbbnum. Ég leit líka aðeins á Valgeir Sigurðsson brugga landa í Andrews Theater. 

Á föstudagskvöldið stóð The Fall upp úr, en á tónleikum sveitarinnar sameinast heimilisofbeldi og taktfast hjakkrokk. Mark E. Smith (Sturluð staðreynd: Hann og Nick Cave eru jafnaldrar, báðir fæddir 1957!!!) er feðraveldið, ráfar um önugur og asnalegur og fokkar í krökkunum í bandinu sem reynda að þóknast honum eins og börn ofbeldissvola. Þetta er átakanlegt (afhverju lemja þau hann ekki bara?) en maður huggar sig við að þetta er sjó og rokk og ról. Persónulega er ég hrifnastur af The Fall upp til 1983, en maður verður að taka ofan fyrir úthaldinu (30+ plötur á 37 árum). Bandið var dúndurþétt og sándið gott og sjóið („geggjuð uppátæki fulla pabba“) skemmtandi á undarlega heillandi hátt. Allavega var þetta miklu betra en í Austurbæjarbíói 2004, enda smakkaði Mark ekki sterkt áfengi fyrir sjóið. Hann mun svo hafa hangið á Paddys í Keflavík alla helgina, blessaður gamli maðurinn.

Í fyrradag sá ég líka Thee Oh Sees, sem ég hafði bundið vonir við, en voru ekki alveg jafn góð og ég hélt. Einum of endurtekningarsamt, já eiginlega vonbrigði bara. Botnleðja, Múm, Ham og Mugison voru svo alveg að standa sig í stykkinu og Kimono skokkaði skítinn úr Andrews.

Nú er bara vonandi að þetta ATP hafi gengið nógu vel til að kýlt verði á aðra hátíð að ári. Með góðu lænöppi ætti þetta að ganga upp og eftir þessa hátíð held ég að hátíðin hafi fest sig í sessi. Fólk fattar að það er ekki óyfirstíganlegt að keyra þennan hálftíma þarna upp eftir. Húrra fyrir ATP!!!

Allt þetta Ásbrúar/Vallar svæði er náttúrlega sorglega illa nýtt. Það er ekki starfssemi nema í svona 1/3 af húsunum þarna. Þegar túristar hafa yfirtekið 101 væri kannski ráð að flytja bara 101 upp á Völl. Þarna eru bestu tónleikahús landsins, fullt af tómum húsum til að búa í, æfa og búa til list og allt til alls nema ég sá hvergi café latte til sölu. Því má auðveldlega redda. 232 – 101 framtíðarinnar?

Best of Westfjords vol. 1

28 Jún

CCG5IeWICNAXCwRpkyWF_PMuBYFAqRXXYRCuh1PCMq4
Túristaleysi er gott ástand. Þótt gráhærðir germanir í anorökkum séu ekki beinlínis fyrir manni er alveg eins gott að þurfa ekki að bíða á eftir þeim í sjoppu. Skárra en álver samt, hugsanlega. Fyrir túristaleysi eru Westfirðir síðasta hálmstráið. Kjálkinn er minnst spjallaður af túrhestum. Ég tala nú ekki um Hornstrandir, þar sem maður rekst ekki á útlending nema hann sé einhverfur snillingur í leit að sjálfum sér.

Þegar maður kemur niður Steingrímsfjarðarheiði og ofan í Ísafjarðardjúp skellur á djúpstæð náttúruhamingja. Þá er maður kominn „heim“. Ég ætti auðvitað ekki að vera að auglýsa þetta hér, en ég treysti því að eintómir snillingar lesi þetta blogg og ekki eitthvað hjólahýsapakk.

3o0JduQ0eLySxCLz2KeFO4GYyxBV3w_ApJB6zUyrwrM
Áður hefur maður lagt leið sína um Hólmavík, þar sem Gunni Þórðar fæddist og á nú æskuheimili sitt í miðbænum. Það er nánast ekkert af viti matarkyns alla leið úr bænum og í Hólmavík svo möst er að stoppa annað hvort á Café Riis (og fá sér hval eða lunda – þótt mér skiljist að lambakjötið sé best) eða í Galdrasafninu (sem má auðvitað skoða líka) og fá sér fiskisúpu eða kúgað fat af kræklingi (2100 kr). Fínn réttur, kryddaður með hvítlauk og jurtum úr garðinum.

6HrrsD4VCKK5ilbX2FKZX4RZcIcHTFJTvKcewpCq9jE
Fátt er um leiðinleg dýr eins og hesta á Westfjörðum, en hins vegar séns að sjá haferni í fjörum. Jafnvel uglur. Á einum stað (á oddanum á milli Skötu- og Hestfjarðar) liggja svo alltaf selir í fjöru en á landi eru ókeypis sjónaukar til að líta á flykkin í nærmynd. Á Reykjanesi er svokölluð sundlaug, sem er í raun stærsti heiti pottur landsins (eða í heimi?). Alveg magnað að dýfa sér þarna ofan í fyrir aðeins 350 kr.

EgxprtyJrnye8rQhQ6lYYZYVT6r6mKhPYBLNRxMbEYA
Á Ísafirði er margt um fína drætti, en ef ég ætti að mæla með mesta mösti Westfjarða væri það all u can eat fiskiveisla í Tjöruhúsinu, besta veitingarhúsi í heimi (5.000 kr). Þar eru bornar fram pönnur með besta fiski sem þú hefur smakkað, en gellurnar toppa þó allt. Ætli ég  hafi ekki skellt í mig eins og þrjátíu gellum í fyrradag, en svo ömurlega vildi til að ég hafði bara pláss fyrir tvær ferðir á hlaðborðið. Á góðum degi næ ég fjórum, fimm.

Öll partí morgundagsins

26 Jún

Þá styttist í besta tónleika-sprell sumarsins, hina dúndurþéttu ALL TOMORROWS PARTIES hátíð á Vellinum (aka Ásbrú / Natobeis). Þetta er nú bara um næstu helgi, gott fólk. Þræl skipulögð dagskráin eðal tónleika og selbitaðra kvikmynda (og vandaðrar popp-spurningakeppni) er komin á netið og er svona:
atptimar

Frekari upplýsingar fást hér. En hérna má dánlóda spikfeitu mixteipi. Ú la la.

Popplestur í sumarfríi

25 Jún

Retromania-Pop-Cultures-Addi
Retromania: Pop Culture’s Addiction to Its Own Past
eftir Bretann Simon Reynolds er þéttur hlunkur sem ég var loksins að klára eftir langt hark. Í bókinni er gríðarmikill fróðleikur umvafinn pælingum Simons um þróun poppsins og spurningin: „Afhverju er ekkert nýtt að gerast lengur“ borin fram og reynt við svarið.

Eins og augljóst má vera er þróun poppsins fólgin í stanslausu endurliti og endurnýtingu. Ekkert verður til af engu (nema kannski allt, skilst mér). Poppið er eins og einstaklingur. Í fiftís rokkinu og sixtís umbrotum var það barn og unglingur, en svo miðaldra og eiginlega gamalmenni í dag. Gamalmenni sem lítur yfir farinn veg og er alltaf að rifja eitthvað upp. Þessvegna eru allar nýjar hljómsveitir eins og eitthvað gamalt, nema kannski með örlitlum breytingum og breyttum áherslum. Spurningin er bara hvort gamalmennið drepst og eitthvað annað fæðist, eða hvort þetta gamalmenni verði til að eilífu. Því get ég ekki svarað, enda get ég ekki fengið tímavél til að hlusta á vinsælasta lagið á Íslandi árið 2100. Kannski verður það bara Vor í Vaglaskógi í grunge eða döbb-útgáfu?

Það er bara búið að gera svo margt að það er erfiðara að gera eitthvað nýtt. Striginn er ekki auður eins og þegar hægt var að sletta fram einfaldri snilld eins og Wild thing og You really got me og það hljómaði ferskt og spennandi.

Þetta er mjög skemmtileg bók og eflaust gæti ég borið hér á borð ýmsar gagnlegar pælingar úr henni ef ég væri ekki búinn að gleyma öllu.

indra
Næstu bók er ég kominn hálfur inn í, Beatles in Hamburg eftir Ian Inglis. Þarna er hinum ævintýralegu mótunarárum Bítlanna lýst af fagmennsku og ég er þegar búinn að læra eitthvað nýtt um bestu hljómsveit í heimi; m.a. það að When I’m sixty-four var eldgamalt lag (Paul samdi það 16 ára), sem bandið spilaði á píanó ef slitnaði strengur og slíkt. Þeir fengu hugmyndina að endurvekja lagið á Sgt. Peppers af því pabbi Pauls var nýorðinn 64 ára um það leiti. Einnig að John leit á Hamborgarárin sem bestu ár Bítlanna og reyndi að snúa aftur í þann fíling og svipaða músík þegar hann var kominn í sólóferilinn.

Svo á ég gommu af öðrum ólesnum poppbókum svo sumarfríinu er svo sannarlega reddað.

Kött númer eitt!

23 Jún

köttnolem
Fyrir stuttu bloggaði ég um lagið frábæra með Kött Grá Pjé og Togga Nolem Gíslasyni, Aheybaró og sagðist spila það í spað væri ég daxrárstjóri. Alltaf er gaman þegar eitthvað sem ég fíla í botn er fílað í botn af landsmönnum og því er gaman að segja frá því að þessi ekkihægtaðfáleiðá sumarsmellur situr nú í fyrsta sæti á Rás 2 listanum, en 365 miðlar eru eitthvað lengur að meðtaka snilldina og lagið er hvergi að finna á þeirra listum. En það er nú bara eins og það er.

Svona staðfestingu á eigin tónlistarsmekk fékk ég líklega fyrst árið 1980 þegar Hírósíma með Utangarðsmönnum var vinsælasta lagið. Diskótekarinn Elvar gekk meira að segja svo langt að fá Geislavirkir plötuna lánaða hjá mér til að spila á „diskótekinu“ sem var haldið fyrir unglingana í félagsheimili eldri borgara í Hamraborg. Nokkru áður hafði ég átt samræður við diskótekarann Elvar í heimilisfræði (á meðan við matreiddum pottrétt úr gulum baunum og kjötbúðingi) um pönk versus „vandaða músík“ þar sem menn „kynnu á hljóðfæri“. Ég man að ég dró lagið Moving Away from the Pulsebeat af fyrstu LP plötu Buzzcocks inn í umræðuna sem dæmi um pönkara sem „kynnu víst á hljóðfæri“ því það er ægilegt trommusóló í laginu.

En allavega. Kött Grá Pjé er rapparinn Atli en sá sem sér um músíkina (eða bítin eins og rappararnir segja) er Toggi Nolem Gíslason, sem ku vera að safna í plötu með þessu lagi og fleirum. Félagarnir voru í viðtali hjá hinni stórskemmtilegu sjónvarpsstöð N4 um daginn.

Úr menningarlífinu

22 Jún

600full-gloriously-wasted-screenshot
Þú verður að athuga eitt. Ef þú vilt að bærinn sé menningar-vænn verðurðu að gjöra svo vel að MÆTA með VESKIÐ þitt. Bíó Paradís er alveg geðveikt dæmi, en afkoman byggir náttúrlega á mætingu. Ég skellti mér þangað á SIGHTSEERS, breskan þriggja stjörnu kaldhæðnisgrínara, sem var fínn. Nú er komin ný mynd sem maður verður að sjá: GLORIOUSLY WASTED, sem er lýst svona: Juha er alkahólisti sem hefur ýmsa fjöruna sopið, og hefur lifað óreiðukenndu lífi í þónokkurn tíma. Hann slæst við mann og annan, lifir slóðalífi og drekkur eins og engin sé morgundagurinn og er slétt sama um það að vakna upp í óhreinum nærfötum útötuð í blóði og ælu. Loks þegar fokið er í flest skjól í lífi Juha, fæst hann til þes að mæta á AA fundi, þar sem hann verður ástfangin af hinni illa tenntu Tiinu. Hann stendur frammi fyrir tveimur valkostum í lífinu, að lifa heilbrigðu lífi með konu drauma sinna eða detta aftur í slóðalífið ofan í hina alræmdu flösku. Ef þetta er ekki sumarsmellur þá veit ég ekki hvað er sumarsmellur.

tumblr_mnmzggu1EF1rix9n4o3_1280
Í Bíóparadís sá ég frábæra mynd á RIFF í fyrra, teiknuðu stuttmyndina THE PIRATE OF LOVE eftir Söru Gunnarsdóttur um dularfulla kassettu tónlistarmannsins Daniels C. Síðan myndin var gerð setti þessi dularfulli listamaður sig í samband við Söru og nú er THE PIRARE OF LOVE Vol. II í bígerð og verkefnið komið í Karolina fund, þar sem maður getur styrkt það. Svona dæmi eins og Karolina fund er fín leið til að safna peningum í verkefni og hefur nýst mörgum vel, t.d. Svavar Pétri og Bulsunum hans.


Svo er það ALL TOMORROWS PARTIES á Vellinum (Ásbrú) um næstu helgi. Það er alveg skuggalega fínt lænöpp á þessari tónlistarhátíð. Þetta verður bara að ganga upp (les: Þú verður að mæta með veskið þitt) svo þetta verði árlegur viðburður. Þarna verður hver silkihúfan upp af annarri (Nick Cave, múm, Ham og The Fall svo maður nefni bara fjóra) í geðveikt góðu stuði. Mitt framlag er Opinn Popppunktur á ENSKU í Offiseraklúbbnum á laugardaginn. Tveir til fjórir mega vera saman í liði og glæsileg verðlaun verða í boði. Af dúndurgóða lænöppinu er ég extra spenntur fyrir að sjá hljómsveitina THEE OH SEES frá San Fransisco, en þar í borg virðist vera mjög góð sena af stökkbreyttu retrorokki (Ty Segall, Mikal Cronin o.s.frv.). Hér að ofan er ofbeldi og rokk frá THEE OH SEES af nýjustu plötunni, Floating Coffin.

 

Tónleikastaðir í Reykjavík

20 Jún

HiYLt8VGa3K_VSdnbFbGPoihe9ayWHiYU_KnRyJzkyI,PDWr_vbud9G-L-ljCroesSwVLfj8upTFLSNKS5eakOU,dOV726giJmzt2egultQEN36tGNd02VdTw0fy08hL_KQ,VDTFcdbnDc8IumgPfVSMIRILJaGYmGRYYNDHlX7qEaI,9HDM0t7RXJ0foI5vYI9ztCFPqHV2-rQl
(Frá vígslu Sjálfsstæðishússins 1946)
Sirka þar sem Hjálpræðisherinn er núna var einn fyrsti dansstaður Reykjavíkur, „Klúbburinn“, á 19 .öld. Þetta varð illa þefjandi hola þegar á leið – „Var seinast svo komið að  þar vildi helst enginn maður með sómatilfinningu sýna sig,“ segir í grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948.

Fyrstu áratugi 20 aldar var Bárubúð (við Vonarstræti) aðalpleisið, en varð strax sjabbí: „Það er hreinasta hneisa bænum og landinu að þurfa að bjóða nokkrum annara þjóða gestum inn í Bárubúð, eins og hún er: salurinn óhreinn, skjöldóttir veggir, léreftstætlur eftir kvikmyndasýningartjaldið í vetur á veggnum við hliðina á leiksviðinu o. s. frv.“ stóð í blaðinu Ísafold þegar píanóleikarinn Arthur Shattuck kom að spila.

Bíóin urðu síðar helsti vettvangur tónleika og annarra menningarviðburða. Nýja bíó í Austurstræti var vígt árið 1920 (bíóið hafði þó starfað síðan 1912 í öðru plássi) og Gamla bíó við Ingólfsstræti árið 1926 (bíóið hafði haft aðsetur í Fjalakettinum við Aðalstræti síðan 1904). Dansleikirnir fóru fram í sölum hótela. Bar þar hæst Hótel Ísland, sem var í nokkrum timburhúsum á horni Aðalstrætis og Austurstrætis, þar sem nú er Ingólfstorg. Hótelið gekk undir gælunafninu „Landið“ og brann til kaldra kola árið 1944. Hótel Hekla, sem var í Hafnarstræti, var vettvangur ýmiskonar stuðs en Hótel Borg varð það stórglæsilegasta á landinu þegar það var opnað árið 1930. Staðurinn hafði mikil áhrif á skemmtanalíf Reykjavíkur og var sá flottast lengi.

Einnig var dansað í Iðnó, í Oddfellows-húsinu, í Gúttó og á fleiri stöðum, en með opnun Sjálfstæðishússins við Austurvöll (Nasa) árið 1946 þótti komið glæsilegasta samkomuhús bæjarins. Í húsinu sem reist var 1874 hafði Kvennaskólinn haft aðsetur, en þarna voru skrifstofur þegar Sjálfsstæðisflokkurinn eignaðist húsið og breytti því í skemmtistað og höfuðstöðvar flokksins. Þegar verið var að breyta húsinu hafði Mogginn stór orð um þann glæsileika sem í vændum var, en kommarnir á Þjóðviljanum hnussuðu vitanlega í fyrirlitningu: „Þetta hús er ekkert sérlega stórt, aðallega einn samkomusalur, ein hæð. Og það er byggt úr ótraustu efni, holsteini, enda ekki ætlað til frambúðar, það er bráðabirgðahús, einskonar lúxusbraggi.“

Sjallinn varð að Sigtúni 1963 þegar Sjálfsstæðisflokkurinn var fluttur upp í Valhöll og Sigmar Pétursson veitingamaður tekinn við rekstrinum. Árið 1969 flutti Sigtún upp á Suðurlandsbraut, Póstur og sími eignaðist húsið og gamli glæsilegi skemmtistaðurinn breyttist í mötuneyti. Sem Nasa opnaði staðurinn rúmum þremur áratugum síðar.

Í gegnum minn feril hef ég spilað á ótal stöðum sem eru ekki lengur til. Til að mynda Kópavogsbíó og Borgarbíó (í Kópavogi), og Roxzý (einnig þekktur sem Safarí og Casablanca), Café Gestur, Hlaðvarpinn, Duus-hús, Hard Rock Café, Tunglið, Tveir vinir og annar í fríi í Reykjavík. Nú berast fréttir af lokun Faktorý (áður Grand rokk) og svo erða vitaskuld Nasa dæmið allt saman.

Staðir eru bara staðir. Ef einn staður hverfur hlýtur annar að koma í staðinn. „Fíllinn í herberginu“ er auðvitað Harpa, sem er hálfpartinn að gleypa allt annað, ríkis/borgar-styrkt í tætlur sem það er. Áratugum saman höfðu sinfóníugeggjarar kvartað yfir ömurlegri aðstöðu á meðan minna heyrðist í poppurum. Björgólfur gamli setti Hörpu í gang og hélt að hann gæti klárað hana. Annað kom í ljós og ráðendur klóruðu sér í hausnum yfir hálfbyggða monsterinu á hafnarbakkanaum. Dæmið var klárað og við munum súpa seyðið af því í svona 50 ár í viðbót eða eitthvað.  

Úr því sem komið er getum við því kannski sagt að Björgólfur gamli og kvabb sinfóníugeggjara um almennilegan tónleikastað hafi drepið rokkið á Íslandi?

Hvaðan kemur annars rokkið? Úr ríkisstyrktum tónleikastöðum? Hvað voru blökkumannabarirnir í Suðrinu, sukkklúbbarnir í Hamborg, Cavern í Liverpool, Glaumbær, Hótel Borg, Duus-hús og Sirkús annað en mis sjúskaðar holur? Þarf kannski að útbúa einn sjúskaðan sal í Hörpu til að íslenska rokkið/poppið eigi þar almennilega heima? Það kemur lítið út úr flugstöðva/rúllustiga-fílingnum í Hörpu, held ég. Það verður aldrei það sama og vel sveitt hola. Vel sveitt hola sem tekur svona 300-600 manns.

Salur eins og Nasa, sem er eingögnu notaður á kvöldin og kannski bara nokkur kvöld í viku er greinilega ekki „hagstæð rekstrareining“. Einhver þarf að sjá hag í því að opna pláss sem hægt er að reka sem eitthvað annað en tónleikastað á daginn. Veit ekki alveg hvað það ætti að vera samt. Fiskmarkaður á daginn, rokkhola á kvöldin? Allt stinkandi í fiskilykt, væri það ekki viðeigandi og spes!? 

Bónus selur ónýt jarðarber

19 Jún

2013-06-19 08.13.21
Svínafóður. Það er það sem maður fær oft þegar maður kaupir grænmeti og ávexti í Bónus. Ónýtt rusl. Auðvitað ætti ég fyrir löngu að hafa lært af reynslunni enda nóg af öðrum  stöðum sem selja ætan mat, en ég sá bara svo lokkandi öskju af jarðarberjum í Bónus í gær. Eins og fífl keypti ég öskjuna og fór í fýlu þegar ég ætlaði að fara að graðka innihaldinu í mig: Það sem ég hélt að væri eldrauð og stinn jarðarber voru grútlin og ógeðsleg ber, allavega helmingurinn með gráum blettum. Ógeðslegt.  Hvenær var þetta eiginlega tínt?

Lufsan sagði að ég ætti að fara og skila þessu en mér finnst miklu gáfulegra að dömpa ógeðinu hér. Ég kaupi aldrei aftur jarðarber í Bónus, svo mikið er víst.

Steiktasti Popppunkturinn

18 Jún

ahofnin
Rúv sýnir nú Popppunkt ársins 2009 á laugardögum um kaffileitið. Síðast var hin magnaða viðureign Sigur Rósar og Áhafnarinnar á Halastjörnunni á dagskrá, en þessi þáttur er löngu komin í sögubækurnar sem steiktasti og skemmtilegasti Popppunkturinn. Sigur Rós og Hemmi, Gylfi og Ari og allir að tryllast úr gleði. Stuðið er í Sarpinum.

Íslandi allt!

17 Jún

Þjóðhátíðardagurinn er í dag og því engin ástæða til að liggja á liði sínu í almennri þjóðremb…stolti. Ég minni á að DR. GUNNI OG VINIR HANS verða í GRINDAVÍK kl. 15:00 og á ARNARHÓLI kl. 16:45 með svaka stuð prógramm fyrir stuðbolta á öllum aldri, þ.á.m. á barnsaldri. Í tilefni dagsins er hér smá myndlistarsýning. Ég kýs að kalla hana

ÍSLANDI ALLT!

17juni-117juni-217juni-317juni-4