Sarpur | apríl, 2012

Leitað að leiðum

30 Apr


Frábært var í gær að hjóla í Fossvogskirkjugarðinn. Sól skein og fuglar sungu, en í moldinni lágu dauðir þúsundum saman og gerðu ekki neitt. Nema Kristnir hafi rétt fyrir sér og allir þessir dauðu séu nú í heljarinnar bisness bakksteits með Guði og Jesúsi og hinni heilögu þrenningu. Ég myndi samt ekki treysta á það.

Lífið er núna, hrópar kirkjugarðurinn á mann. Ég samþykki.

Hinn frábæri vefur Garður gefur manni staðsetningu þeirra dauðu. Ég hafði staðsetningu ömmu minnar og nöfnu, Guðrúnar Láru, og bróður míns, Hjálmars Þorbjörns, sem fæddist 3 árum á eftir mér en lést eftir mánaðarlegu á spítala. Hann var með hjartagalla sem mér skilst að auðvelt væri að lækna í dag, en var það ekki 1968.

Eftir að við Dagbjartur höfðum gert fínt hjá ættingjum okkar leitaði ég að Bjarna Björnssyni leikara og poppstjörnu, sem var aðal gaurinn frá sirka 1910 þegar hann byrjaði að koma fram með söng og eftirhermur. Ég hafði ekki hugmynd um þennan listamann fyrr en Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum leyfði mér að heyra nokkrar 78 snúninga plötur þegar ég heimsótti hann í fyrra.


 Bjarni Björnsson – Internationale: Framsögn
(Þetta lag er að sjálfssögðu birt hér í tilefni að 1. maí á morgun. Upptakan fór fram í Berlín 1931).

Þú lest bara betur um Bjarna í STUÐ-bókinni sem kemur í haust (eða í þessari færslu – fleiri hljóðdæmi!). En þarna liggur hann sem sagt núna, gleymdur og grafinn og enginn nennir að heimsækja hann. Í næsta leiði er konan hans Torfhildur Dalhoffsdóttir og dóttir þeirra, Katrín Dalhoff. Allt merkilegt fólk í sinni tíð og mikilsvirt í músík- og bæjarlífinu.

Frá garðinum tók Öskjuhlíðin við. Glæsilegt útivistarsvæði og nóg af spennandi dóti; kanínur og túristar, og yfir her-gryfju voru einhverjir geðsjúklingar að ganga á línu. Svo var það neðanjarðarbyrgið, en samkvæmt gamalli flökkusögu liggur blóðugur hnífur á borði þar inni. Við þorðum að sjálfssögðu ekki að tékka á því.

Dr. Gunni snýr aftur

29 Apr


(Þessi hljómsveit var stundum kölluð Old Man & The Rent Boys)

Einu sinni var hljómsveit sem hét því gríðarlega frumlega nafni Dr. Gunni.  Grímur, Gummi og Kristján Freyr voru auk mín í sveitinni og okkur tókst að koma út plötunni Stóra hvelli, stórfenglegu meistaraverki sem alltof fáir heyrðu. Það gerðist árið 2003, svo til að halda upp á 9 ára afmæli komum við saman aftur á Gauknum fimmtudaginn 24. maí og tökum nokkur lög.

Þetta eru afmælistónleikar fyrir Wim Van Hooste, Belga sem er forfallinn Íslands-áhugamaður og er sérstaklega áhugasamur um íslenska músík – hefur haldið úti ýmsum netmiðlum þar að lútandi, m.a. Icelandic Music þar sem nú má sjá nokkur ný kóverlög af Rokkinu. Tónleikunum er einnig ætlað að halda upp á 30. afmæli Rokks í Reykjavík og taka öll böndin a.m.k. eitt lag af Rokkinu. Boðið er upp á úrvalsdagskrá, auk Dr. Gunna koma Sudden Weather Change, Q4U, Æla, Mosi Frændi, Morðingjarnir, Hellvar og Fræbbblarnir líka fram.

Subbulega snargeðveikt allt saman.

Stafrænt dúll

26 Apr

Guðmundur Árnason (1833-1913), aka Gvendur Dúllari, flæktist um með list sína fyrir tíma spjaldsíma og Facebook og dúllaði fyrir fólkið. Þetta þótti nokkuð góð skemmtun í fábreytninni og Gvendur fékk mat og húsaskjól fyrir. Hann berháttaði sig og svaf kviknakinn sem þótti jafnvel enn furðulegra en dúllið. Ekki náðist að taka Gvend sjálfan upp við að dúlla en þeir sem heyrðu performansinn hafa sumir líkt eftir dúllinu inn á band.

Nýverið opnaði hin frábæri vefur Ísmús, þar sem allskonar gamlar upptökur er að finna, viðtöl við gamlingja fortíðar og upptökur allt aftur í bankamanninn Jón Pálsson frá Eyrarbakka, sem fyrstur fór að taka upp á vaxhólka snemma á síðustu öld. Sé leitað að „dúllari“ á Ísmús koma upp margar frásagnir. Sé leitað eftir „dúllara“ koma jafnvel ennþá fleiri frásagnir! Þú getur sem sagt velt þér upp úr Gvendi dúllara í allan dag!

Kristín Snorradóttir segir að margir hafi reynt að hafa dúllið eftir en „það var ekkert líkt“. Hér er hrá og skemmtileg upptaka frá Jóni Pálssyni þar sem Hjálmar Lárusson tekur stutt dúll, einhvern tímann á milli 1903 og 1912.

Í gullkistu Jóns Pálssonar er allskonar gúmmilaði, til að mynda upptaka af Þórbergi Þórðarsyni að herma eftir afa sínum. Hér eru vaxhólkarnir stafrænir. Heillandi stöff!

Jón Leifs fór líka um landið með upptökuhólk sirka 15 árum síðar og tók upp rímur og frásagnir og eftirhermur. Hér er til að mynda Ríkharður Jónsson að dúlla 1925. Jón Leifs katalókurinn er annars hér.

Hér er svo grein um að Gvendur hafi örvað hljómsveitina Þey (ljósmyndin sem fylgir er reyndar af öðrum „kvisti“, Símoni Dalaskáldi, sem flakkaði oft með Gvendi bakk in ðe deis).

Hér skrifar svo Séra Bolli Pétur Bollason um Gvend.

Úr menningarlífinu

23 Apr


Fór á smá listarúnt um helgina. Hressasta sýningin er að vanda útskriftarsýning Listaháskólans. Hún verður opin til 6. maí. Þarf að tékka á henni betur því það var svo troðið á laugardaginn, en í fljótu bragði fannst mér eins og það hafi nú oft verið meira stuð á þessum sýningum. Einna skemmtilegast voru málverk Ránar Jónsdóttur, sem Eir segir frá hér.


Á List án landamæra er að vanda margt gott í boði. Í Hafnarborg í Hafnarfirði er  Atli Viðar með gríðargóð klippi- og pappaverk. Ég þarf að kynna mér dagskrána hjá LÁL betur. Í Hafnarborg er Hrafnkell Sigurðsson (Keli í Oxzmá) með hafnarverkamannasýninguna Hafnarborgin. Mest töff voru 200 málningarlok haganlega hengd upp í röð (sjá mynd).

Myndunum í þessu bloggi var stolið af síðunni Endemi, sjónriti um íslenska samtímalist.

Þrælfínir 10cc

22 Apr


Þrælfínir tónleikar fóru fram í Háskóalbíói í gær þegar einn af meisturunum, Graham Gouldman, sýndi hvað í honum býr. Þeir voru bara fjórir á sviðinu með honum en ruddu út smellum og albúm trökkum af 10cc katalóknum af mikilli fagmennsku, unaðslegum samsöng og hljóðfæraslætti. Maður heyrði þræði frá Bítlum og Beach Boys í 10cc stöffinu og undraðist að það sé hægt að troða upp undir 20 köflum í hvert lag. Frábær hljómsveit og frábært gigg.

Áður en 10cc byrjaði sá Graham sjálfur um upphitun. Spilaði þá stórsmelli sem hann samdi í verktakavinnu fyrir tíma 10cc á kassagítar með félögum sínum. Bara toppur ísjakans en við fengum m.a. að heyra Bus stop, For your love og No milk today.

Ég hef verið að tékka á vintage 10cc á Youtube. Þar er allskonar gúmmilaði.

Hér er til að mynda Wall Street Shuffle frá 1974 og þar er trommarinn Paul Burgess (sem minnir á Bobby Harrison í útliti) kominn í bandið og trommar við hlið Kevins Godleys.

Hér er Second sitting for the last supper frá 1977 og Rick Finn kominn inn á gítar. Þetta lag var ekki tekið í gær.

Það er þó nokkur proto nýbylgja í 10cc innan um soft rokkið og bara allskonar. Þeir mixa þetta allt í graut. Til dæmis lagið Clockwork Creep af annarri plötunni, Sheet Music: Þar eru kaflar sem hefðu smellpassað á fyrstu plötur XTC. Þarna eru greinilegir þræðir á milli, enda gömul saga og ný að allt, hvort heldur músík eða lífið sjálft, veltur áfram mann frá manni eins og snjóbolti niður brekku. Jæja góði.

Píkur og skór til forna

21 Apr


(Pia Frils Jensen árið 1973. Smellið á mynd til að stækka)
Fletti í gegnum heildarútgáfu Samúels (1971-1984) í leit að myndefni fyrir STUÐ-bókina. Ég hef því séð loðnar píkur til að endast mér út árið. Og satt að segja finnst mér loðnar píkur miklu meira eins og píkur eiga að vera heldur en nauðrakaðar píkur nútímans. Þær eru satt að segja hálfgerð ónáttúra og viðbjóður. Í alvöru, eru ekki allir komnir með leiða á þessu skinkulúkki? Þessari fótósjoppuðu neyzluhyggju sílikon ljósabekkja úrkynjun? Þessari nautheimsku útlitsdýrkun? Ég held að óheftur hárvöxtur sé það sem koma skal. Sílíkonfylltir sköllóttir píkubarmar og aflituð rassgöt eru búnir að vera nema hugsanlega á Grensásveginum.

Ég horfði á fyrsta þáttinn af sjónvarpsþættinum Girls, sem hefur verið lýst sem „Sex in the city – the next generation“. Þetta er ágætis stöff og frábærast að fólkið í þættinum er ekki fótósjoppað og alveg með hold utan á sér og svona. Eðlilegt. Ekki skinkað. Þetta gefur smá von um að eðlilegt sé að verða inn.

Kannski ekki samt. Kannski eru „allir“ bara fastir í þrældómi skinkismans. Kannski verða loðnar píkur aldrei inn aftur frekar en skórnir sem voru auglýstir í sama tölublaði og hún Pia hérna að ofan birtist í árið 1973. Baðaðu augum yðar upp úr þessu!

(Smellið á mynd til að stækka)

Hér er nýtt videó með The Flaming Lips. Sé ekki betur en það sé allt au naturel þarna.

UPPFÆRT: Svipuð skótíska mun nú vera komin aftur, a.m.k. í KRON KRON þar sem svona skór kosta vikulaun verkamanns (ef ekki meir).

Igurður er sjóv-maður

21 Apr



Igurður Popp er 65 ára í dag og fer aldurinn honum, ö, vel (sjá mynd). Aldrei hefur hryggskekkja verið eins kúl og hjá Igga og hann kemur auðvitað alltaf fram ber að ofan. Maðurinn er meistari og þegar þessi blessaða kjarnorkusprengja fellur loksins (eða þegar sýnir spámiðla rætast loksins) mun ég hækka Search and Destroy í botn og bráðna með bros á vör. Iggy spilar músík til að farast við, en er samt lífsnautnin sjálf æðahnútaholdi klædd. Hér er meira hjal um mannkosti Igga.

Plötubúðadagurinn er í dag – Record store day. Um allan heim er allskonar gleði í gangi til að fagna innleggi plötubúða til að gera heiminn þolanlegri, m.a. eru gefnar út rosa margar plötur í tilefni dagsins (listinn er hér og hér hefur Louder than War tekið saman 10 áhugaverðustu plöturnar). Á Íslandi ber það til tíðinda að strákarnir í Eldberg spila í Lucky um kl. 12:30 og í verslun Kongó (Mýrargötu, Liborius húsinu) er dagskráin svona: 13:00 Opnun / 16:00 The Vintage Caravan / 17:00 Snorri Helgason / 18:00 Bjórtími á Forrréttabarnum. Ég mæli að auki með heimsókn í geisladiskabúð Valda (plötuhaugarnir eru á bakvið) og í Smekkleysu.

10cc spila í Háskólabíói í kvöld. Enn eru til nokkrir miðar, held ég. Mixið sem ég útbjó er hér.

Viðbjóðsleg sellát auglýsing Retro Stefson (djók) er hér. Bandið hefur samið við Record Records um útgáfu á næstu LP plötu en kemur með sjö tommu í maí af stuðlaginu Qween. Remix eftir Hermigervil er á b-hlið.


 Kristmann Op – Hátt fjall
Kristmann Op er ný íslensk hljómsveit (eða einmennings-hljómsveit?) sem er mætt með lagið Hátt fjall. Myndband á Youtube hér sýnir blágallaða árekstraprófunardúkku vafra um Rauðhóla (eða álíka) í góðu flippi. Á Soundcloud má heyra eitt lag enn. Meira á svo eftir að heyrast í Kristmanni Op í sumar.


 Vax – Come’on
Hljómsveitin VAX hefur lítið látið á sér kræla síðan í haust, en þá tók bandið hringinn með trompi og spilaði á 13 tónleikum vítt og breitt um landið. Nú var verið að senda frá sér nýtt lag í spilun sem er upphafslag Greatest Hits + Covers tvöfalda albúminu sem kom út í haust. Lagið heitir Come on og kemur innblásturinn frá stemningu sem myndast oft þegar fólk kemur saman í sátt og samlyndi eins og á Bræðslunni Borgafirði Eystra sem VAX spilaði á 2011 og Woodstock 69 sem VAX spilaði ekki á. Myndbandið er kunnuglegt og tekið frá Woodstock 69 og passaði snilldarlega við lagið. Annars er það í öðrum fréttum að hljómsveitin er á leið til Hollands í lok maí og spilar þar á tvennum tónleikum í Wolvega og Leeuwarden. (úr fréttatilkynningu).

Spikfeit músíkfærsla

20 Apr



Rokkþenkjandi Þjóðverjar á Íslandi eru enn í skýjunum eftir að ein allra vinsælasta grúppa Þýskalands, Die Toten Hosen (Nábuxur), hélt lítið leynigigg í einbýlishúsi við Selfoss. Nú er komið stutt videó um Íslandsheimsóknina og giggið. Claus Sterneck tók líka myndir.

Þótt það sé bara apríl hafa nokkrar mjög fínar íslenskar plötur komið út í ár.


Legend – City
Fearless er helv töff plata með Krumma og Halldóri Á Björnssyni, Legend. Tíu sandorpin stuðlög. Gogoyoko skaffar dótið.


 Gunman & The Holy Ghost – A Way Back From Civilization
Things to regret or forget er plata með Gunman & The Holy Ghost, sem er verkefni Hákons Aðalsteinssonar (Hudson Wayne, Singapore Sing, The Third Sound). Verulega sneddí stöff, sem bæði krukkar í Lee Hazlewood-ískt drama og fljótaskrift Spiritualized. Gogoyoko er medda.


M-Band – Misfit
M-Band er Hörður Már Bjarnason, ungur mjög efnilegur strákur sem er búinn að gera 6-laga ep sem heitir EP. Glimrandi núraf með soft errogbé-slikju. Gogoyoko lumar á þessu.


 Þórir Georg – Skiptir engu
Janúar er Cure-platan hans Þóris Georgs, þ.e. Cure áður en bandið gerðist djollí og var draugalega dapurlegt (sjá meistaraverkið Faith og Pornography). Trommuheili, gítar og noise og allir í góðu stuði. Plötuna (ásamt trúbadorplötnni Afsakið) má fá á Bandcampi Þóris.

Sumargleðin með Prins Póló

19 Apr

 Sumargleðin – Prins Póló
Gleðilegt sumar! Sund, ís og fjöll – her æ komm. Hér er Magnús Ólafsson og hið sumarlega Prins Póló (texti eftir Þorstein Eggertsson en lagið eftir Þýskarann Frank Zander) Magnús Ólafsson fór auðvitað í Prins Póló-umboðið og gerði smá plögg. Gaman að því að Birgir Guðmundsson, forstjóri umboðsins, er sláandi líkur Glen Campbell. Lagið kom út 1981 á fyrstu plötu Sumargleðinnar. Platan var gefin út á 10 ára starfsafmæli Sumargleðinnar og innihélt annan megasmell, Ég fer í fríið.

Járnhiminn / Gos í Tiger

19 Apr

Fór á myndina Iron Sky sem nokkuð hæp hefur fengið að undanförnu. Finnsk mynd um nasista frá tunglinu. Fyrst í stað var þetta skemmtilegt og flott og frumlegt, en svo eiginlega strax eftir hið hörmulega fyrirbæri hlé fór að halla verulega undan fæti og myndin var fyrirsjáanleg, leiðinleg og ekkert spes. Finnar fá eina stjörnu í forgjöf svo myndin fær 3 stjörnur. Það var líka ágætlega hressandi b-mynda keimur af myndinni, en pólitísk hæðni frekar þunn.


Hin ágæta lágvörubúð Tiger er alltaf að þenja sig með gos í kæli. Nýverið fór búðin að selja danska Ego-gosið og ég hef smakkað tvær sortir. Lime var nú eiginlega bara fínt, hressandi og sætt læm og 3 stjörnur á það. Cola var hins vegar vonlaust, enda skil ég ekki hvað fólk er oft að rembast við að setja nýja cola-drykki á markaðinn þegar Coke hefur náð fullkomnun á þessu sviði og allt annað er rugl (nema kannski Spur). Ego cola er súrt og vonlaust (1 stjarna), en krökkunum mínum fannst þetta ágætt og kláruðu flöskuna. Ég er ekki frá því að gosverksmiðjunni Kletti, sem var hér með Kletta kóla fyrir nokkrum misserum, hefði vegnað mun betur ef fyrirtækið hefði sett eitthvað annað og frumlegra á markaðinn en kóladrykk.