Skúli Thoroddsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Skúli Thoroddsen (f. í Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859 - d. í Reykjavík 21. maí 1916) var íslenskur stjórnmálamaður og ritstjóri, lögfræðingur, sýslumaður, blaðaútgefandi og kaupmaður.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Skúli var sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds og konu hans Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, dóttur Þorvaldar Sívertsen alþingismanns. Bræður hans voru þeir Þorvaldur Thoroddsen land- og jarðfræðingur, Þórður Thoroddsen héraðslæknir, alþingismaður, bæjarfulltrúi og féhirðir í Íslandsbanka, og Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur og yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík.

Menntun og störf[breyta | breyta frumkóða]

Skúli lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1879 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884. Eftir að hann sneri heim frá Danmörku var hann skipaður málaflutningsmaður við landsyfirdóminn 1. ágúst 1884. Því næst gerðist hann sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði í átta ár, eða frá 1885 til 1892. Honum var vikið úr starfi 1892 eftir svokölluð Skúlamál. Hann var sýknaður í Hæstarétti árið 1895 og á ný boðið sýslumannsembætti sem hann hafnaði. Sama ár var honum því veitt lausn með eftirlaunum.

Skúli sat á Alþingi fyrir Eyfirðinga á árunum 1890-1892, fyrir Ísfirðinga 1892-1902 og Norður-Ísfirðinga 1903-1915. Þá var hann forseti sameinaðs þings á árunum 1909 til 1911. Á þingi beitti hann sér meðal annars fyrir rýmkun kosningaréttar og afnámi vistarbands. Þá var hann skipaður í milliþinganefndina 1907 og barðist gegn uppkastinu. Hann var einnig yfirskoðunarmaður landsreikninga 1908-1913.

Skúli stjórnaði kaupfélagi á Ísafirði 1888—1901, það annaðist meðal annars saltfisksölu til Miðjarðarhafslanda. Hann rak einnig verslun á Ísafirði 1895—1915. Hann stóð að útgáfu Þjóðviljans á árunum 1886 til 1915, frá 1892 sem eigandi og ritstjóri.

Skúli keypti Bessastaði á Álftanesi árið 1899 og var bóndi þar á árunum 1901-1908. Þar rak hann prentsmiðju, auk þess sem hann stýrði blaði sínu og versluninni á Ísafirði. Árið 1908 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, að Vonarstræti 12, og átti þar heima síðan. Eftir lát Skúla bjó Theódóra ekkja hans þar áfram til 1930.

Fjölskylduhagir[breyta | breyta frumkóða]

Kona Skúla var Theódóra Thoroddsen skáldkona (1. júlí 1863 – 23. febr. 1954) og gengu þau í hjónaband 11. október 1884. Skúli og Theódóra eignuðust alls 12 börn. Skúli og Theódóra voru þekkt fyrir að ala börn sín upp á mun frjálslegri hátt en tíðkaðist á þeim tíma og var jafnan mikið um að vera og mikill gestagangur á heimilinu. Einn afkomandi þeirra hjóna, Ármann Jakobsson, sendi árið 2008 frá sér skáldsöguna Vonarstræti, sem er byggð á tímabili úr ævi þeirra. Ævisaga Skúla, skrifuð af Jóni Guðnasyni, kom út í tveimur bindum á árunum 1968 og 1974.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Skúli, þá forseti sameinaðs alþingis, var sendur sem fulltrúi þess á hátíð sem haldin var 1911 í Rúðuborg til að minnast þúsund ára landnáms norrænna manna í Normandí.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.