Svartur Svanur flýgur af stað í þriðja sinn. Baðar út vængjum sínum, fyllir himininn svertu og rífur í sundur þöggunarþoku yfirvalda og doða almennra valdleysingja. Svartur Svanur er árás, goggi og klóm er miskunnarlaust beint gegn bæði hægri og vinstri væng atvinnustjórnmálanna. Hann er árás á ríkjandi kerfi og menningu, grunngildi samfélagsins, hefðir þess og viðurkennda hegðun. Hann er algjör höfnun á núverandi ástandi, ákall á uppreisn og óhlýðni á öllum sviðum samfélagsins og hvatning til nauðsynlegs niðurrifs og skapandi andspyrnu.

Þriðja tölublað anarkistatímaritsins Svartur Svanur er komið út. Upphaflega átti blaðið að koma út í janúar en af ýmsum ástæðum frestaðist útgáfan. Það hafa engin undraverk átt sér stað síðan þá og efni blaðsins á því hið sama erindi inn í íslenskt mannfélag og það átti fyrir tveimur mánuðum síðan. Í þetta sinn er Svartur Svanur stærri en áður – áttatíu blaðsíður af ráðlögðum andófsskammti – og mun fjölbreyttari í þokkabót.

Grein Snæbjörns Jónssonar, „Hvað er anarkismi?“ frá 1913 birtist nú aftur á prenti, til móts við tæplega hundrað árum yngra svar við nákvæmlega sömu spurningu. Tískukistinn, sem nú mundar pennan fyrir Svaninn í fyrsta sinn, greinir búsáhaldabyltinguna, popúlisma íslensku „stjarnanna“ og stéttskiptingarboðskap appelsínugulu hreyfingarinnar. Tískukistinn svarar einnig spurningum lesenda um lífshætti, móð og mannasiði. Fjallað er um andúð breska skáldsins William Blake á yfirvaldi og hvernig anarkískar hugmyndir birtast í skáldskap hans og myndverkum.

Ákall um stéttastríð og greining á spillingu verkalýðsfélaga birtist í blaðinu, auk síðbúnar minningargreinar um Helga Hóseason. Þýðing á grein eftir Derrick Jensen setur fram efasemdir á réttmæti iðnvæddrar siðmenningar og kallar á harðari aðgerðum gegn þeim öflum sem ganga fram og rústa jörðinni í nafni framfara. Einnig er í blaðinu grein sem birtist á vel völdum vefsíðum í byrjun desember sl., þar sem kafað er ofan í orðræðu loftslagsbreytinga, græna sjónarspilið svokallaða, endurlífgun og „grænkun“ kapítalisma; allt í tengslum við COP15 ráðstefnuna sem fór fram í Kaupmannahöfn í desember sl. Þá er umfjöllun um sögu fríríkisins Kristjaníu.

Grískur anarkisti skrifar um ástandið þar í landi undir stjórnartaumum sósíal-fasistaflokksins PASOK og andspyrnuna sem vaxið hefur fiskur um hrygg síðan borgir landsins stóðu í ljósum logum um áramótin 2008-2009. Ráðist er gegn ofsóknum lögreglunnar í leikskólum landsins og  rætt er um hlutverk lögreglu í samfélagi, eðli stofnunarinnar og möguleikan á samfélagi án þessara einkaleyfishafa ofbeldis. Atvinnustjórnmálamenn fá sinn skammt af andúð og Svanurinn endar svo á hugleiðingum um anarkisma og útópíur.

Þar að auki eru í blaðinu ritdómar og fjöldi smærri texta, ljóða, prósa og myndverka. Þar fá grunngildi samfélagsins óvæga meðferð, þ.á.m. hugmyndin um heilagleika hinna tveggja kynja, meint hreinlæti borgarsamfélagsins og hinn heiðvirði vinnandi maður. Umfram allt stórt og kraftmikið „nei!“ – því allar breytingar eiga sér rætur í neitun á núverandi ástandi.

Til að hljóma ekki allt of ólíkt andstæðingum okkar – en einnig vegna þess að það er einfaldlega satt – fullyrðum við að blaðið sé eitthvað sem „enginn geti látið framhjá sér fara“ og bendum fólki því á að hægt er að ná sér í eintak með því að senda beiðni á netfangið svartursvanur[at]riseup.net – við komum blaðinu til þeirra sem það vilja. Allar nánari upplýsingar um blaðið fást í gegnum sama netfang. Fangar geta fengið blaðið frítt en aðra biðjum við um að láta af hendi c.a. andvirði bjórs á bar svo við getum haldið áfram að gefa út feita og flotta fugla. Blaðið verður einnig í sölu hjá stórum kapítalistum, sem finnst kúl að selja smá andóf innan um slúður og vísindi. Þið hljótið að renna á lyktina…